22.01.2006 22:07

When in Rome...

Sæl og blessuð!

Það er allt fínt að frétta af okkur. Ég er bara álíka hress og alltaf, veit samt ekki alveg hvort ég er að fá tannpínu eða nýjan endajaxl. Það er ekki svo hressandi. Ef ég ætti að nota eitt orð til að lýsa því hvernig Silja hefur það þá myndi ég nota orðið þreytt. Hún er orðin ferlega þreytt á þessu öllu saman. Ég skil hana vel þar sem hún er búin að vera meira og minna lasin síðan hún varð ólétt. Núna eru það stöðugir verkir, bæði hausverkir, magaverkir og beinverkir. Það styttist í að 40 vikurnar verði komnar, 27. janúar, og þá er bara að vona að hann láti ekki bíða of mikið eftir sér.

Við erum búin að ákveða að fá okkur Canon vélina. Ætlum bara að bíða þangað til á miðvikudaginn því þá verð ég búinn að fá útborgað. Eftir það getum við farið að dæla inn fleiri myndum, sérstaklega þar sem það er svo auðvelt hérna. Gott að hafa svona algjörlega imbahelt forrit fyrir myndaalbúmin. Ég ætla líka að henda inn gömlum myndaalbúmum við fyrsta tækifæri.

Það var alveg hreint ótrúlega skemmtilegt spilakvöld í gærkvöldi. Reyndar var ekkert spilað en við náðum þó að skemmta okkur vel. Jú, við spiluðum reyndar nokkra geisladiska, ef það telst með. Það er fátt, ef nokkuð, sem jafnast á við það að eiga svona æðislega skemmtilega ættingja. Sérstaklega finnst mér gaman að Kolli junior skuli vera fluttur suður. Við náum vel saman og erum með margar mjög áhugaverðar pælingar í gangi.

Núna tekur svo biðin við. Það er allt tilbúið fyrir komuna, þannig lagað. Auðvitað má dytta að ýmsu en hann gæti komið núna ef hann vildi. Biðin er frekar erfið, sérstaklega fyrir Silju, en við reynum að láta fara vel um okkur þangað til eitthvað gerist. Ég veit að það eru margir sem fylgjast með okkur og ég mun auðvitað láta vita af okkur reglulega og þegar eitthvað gerist. Verið bara endilega dugleg að segja hvað ykkur finnst.

Nú ætla ég að horfa á Rome, vona að það sé fínn þáttur. Hljómar allavega spennandi. Og go United! Unnu Liverpool í dag og það rokkar.

Kveðja,
Dóri
Flettingar í dag: 10
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 1376
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 90420
Samtals gestir: 17923
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 03:23:23