27.01.2006 00:59

Nýjar myndir

Jæja jæja, þá eru fyrstu myndirnar úr nýju vélinni komnar á netið. Þetta er ekkert smá skemmtileg vél og gaman að taka myndir með henni. Það sést líka þar sem nokkrar af myndunum eru ansi tilraunakenndar. Dálítið verið að leika sér á vélina og prófa stillingar. Samt líka myndir af okkur og bumbunni. Endilega kommentið.

Ljóðalesturinn í MS gekk annars alveg ljómandi. Ég verð að hrósa MS-ingum fyrir betri mætingu en ég þorði að vona, sérstaklega miðað við að Gettu Betur var í gangi þarna sama kvöld. Skáldin voru mjög frambærileg og flest skemmtileg. Ég held að mér hafi bara gengið nokkuð vel, allavega leið mér vel með þetta. Ég var nú samt orðinn mjög stressaður þegar ég fór upp á sviðið og var á tímabili ekki viss hvort ég myndi ráða við þetta en eftir að ég las fyrsta ljóðið jafnaði ég mig. Hefði reyndar viljað fá einhver viðbrögð eftir á en skortur á þeim gæti stafað af því að ég yfirgaf MS fljótlega eftir að dagskrá var lokið. Vona að fólk hafi kunnað að meta þetta. Andri Snær var samt alveg ótrúlega skemmtilegur, fór alveg á kostum. Mjög skemmtilegt kvöld og alltaf gaman að gera eitthvað svona menningarlegt.

Talandi um menningu þá rokkuðu handboltastrákarnir í dag. Ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim þegar þeir komast á svona skrið. Guðjón Valur er ekkert eðlilega fljótur maður. Vona að þeir haldi dampi og nái að taka stemninguna með sér í næstu leiki.

Nú er kominn föstudagur sem þýðir að það eru komnar 40 vikur. Í dag er settur dagur, nú á erfinginn að koma. Í dag er líka 250 ára afmælisdagur Mozart. Í dag eiga Íslendingar að keppa við Dani í handbolta. Tilviljun? Held ekki.

Mér finnst Benni Hemm Hemm ömurlega hundleiðinlegur tónlistarmaður. Mér finnst hann ekki eiga skilið íslensk tónlistarverðlaun. Hann og söngvarinn í Jakobínarína ættu að taka sig til og flytja á einhverja mongólítaeyju úti í rassgati og láta mig í friði. Svo skil ég ekki þetta helvítis Bubbasnobb alltaf. Hann semur ágætis útileguslagara en engin meistarastykki.

Áfram Mugison og Hjálmar og svo legg ég til að allir hnakkaþættir verði teknir af dagskrá. Takk fyrir.
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 1376
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 90473
Samtals gestir: 17942
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 21:21:53