Færslur: 2006 Febrúar

26.02.2006 00:23

Afmælisflöh!

Halló fólk,

ég bið ykkur að afsaka þögnina en þannig er mál með vexti að kerfið hrundi eftir að ég setti inn spurninguna í síðustu færslu því allir vildu bjóða okkur í Eurovision partí. Kaldhæðni? Ég veit það ekki. Í öllu falli er nægur tími til að velta fyrir sér hugsanlegum Eurovisionpartíum.

Hins vegar á ég afmæli á mánudaginn og því verður boðið upp á bollukaffi uppí Suðurás á morgun, sunnudag. Veglegar veitingar og Frosti til sýnis. Engin sérstök tímasetning en allir velkomnir. Það er að segja allir sem þekkja okkur eitthvað.

Takk fyrir

23.02.2006 17:26

Eurostuð

Hæbb, við stungum af upp í sveit í nokkra daga. Erum komin aftur. Gott að komast í sveitina.

Annars lítið að frétta, allir dafna vel og litli guttinn orðinn heil 5 kíló. Drekkur eins og enginn sé morgundagurinn og er bara hress.

Aðalspurningin þessa dagana er samt; hver ætlar að bjóða okkur í Eurovisionpartí?

13.02.2006 20:53

Næluklukk eða eitthvað

Arngrímur nældi klukki á mig svo hér kemur það:

4 störf sem ég hef unnið:
Baðvörður í Árbæjarlaug
Pizzasendill hjá Domino's
Ljóðskáld hjá Hinu Húsinu
Svæðisstjóri hjá Húsasmiðjunni

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
Big Time
Monty Python myndirnar
Godfather myndirnar
Die Hard myndirnar

4 staðir sem ég hef búið á:
Vesturbergi (man ekki númerið)
Leirubakka 20
Suðurás 6
Jórufelli 2

4 sjónvarpsþættir sem ég elska að horfa á:
Monty Python's Flying Circus
Dolph og Wulff!!!
My sweet fat Valentina
Simpson's

4 staðir sem ég hef verið í fríi á:
Álaborg í Danmörku
Chicago í US of A
Costa del Sol á Spáni
Stokkhólmur í Svíþjóð

Fjórar uppáhaldsbækur:
Wild Years um Tom Waits
Forðist okkur eftir Hugleik Dagsson
Hitchhikers guide to the Galaxy eftir Douglas Adams
Pulp eftir Bukowski

4 vefsíður sem ég skoða daglega:
heimasíðan hans Frosta
mbl.is
blogghringurinn
pósturinn

4 x uppáhalds maturinn minn:
Kjúklingapastað sem Silja gerir
Drottningarskinka
Mexíkóskur matur
Nautasteik

4 staðir sem ég vildi vera á núna:
Ítalíu
Kúbu
New York
Tókýó

4 bloggarar sem ég næli:
Tom Waits
John Cleese
Svarti gaurinn úr Ghostbusters
Hildur (kannski hún bloggi þá eitthvað)

12.02.2006 21:08

Mexíkóskar myndir

Lífið er aldeilis ótrúlega skemmtilegt þessa dagana. Gaman að fylgjast með Frosta litla þroskast og hvernig hann verður sífellt skýrari.

Ég fór í afmælispartý til Hannesar og Friðgeirs á föstudaginn. Það var ekkert lítið skemmtilegt að koma þangað. Ég fékk höfðinglegar móttökur frá bæði þeim og öðrum sem ég þekki. Alltaf gott að finna hvað vinum manns þykir vænt um mann. Svo var líka boðið uppá ótrúlega skemmtileg skemmtiatriði; danssöngatriði við Total Eclipse of the Heart, mongóeinkahúmorshiphop og sæta ræðu frá Elísabetu Jökuls. Ég hlakka til þegar ég og Silja komumst aftur á almennilegt leikhúsdjamm.

Í gær fór ég síðan í fjölskyldumat. Það er hefð hjá mömmu og systkinum hennar hér fyrir sunnan að hittast hjá einu þeirra með alla fjölskyldumeðlimi og borða saman. Reyndar stutt hefð en góð hefð samt. Í gær var 3. hittingurinn hjá okkur. Hluti af hefðinni er að hafa alltaf þema í partíinu, þ.e. matnum og tónlist og almennri stemningu. Fyrst var ítalskt þema, svo indverskt og í gær var mexíkóskt þema. Þar fékk ég líka álíka góðar móttökur sem var gaman. Fáránlega góður matur á boðstólnum og góður félagsskapur. Ég og Kolli jr. prófuðum smá gítardjamm sem var töff og ég hlakka til að gera eitthvað meira með honum í músíkinni. Ég tók nokkrar myndir sem ég er búinn að setja inn í myndaalbúmin.

Silvía Nótt... ég hef aldrei þolað þennan karakter og finnst að hún ætti ekki að fá að taka þátt eftir að hafa brotið reglur Eurovisionkeppninnar. En fyrst hún má taka þátt þá vona ég að hún vinni því hennar atriði er langbest. Reyndar er ekki efakorn í mér að hún rústar þessu. Þó getur maður aldrei fullyrt neitt varðandi Eurovision, það sást best þegar ljóta leiðindarbeyglan hún Birgitta Haukdal var kosin framyfir Botnleðjusnilldina um árið. Þvílíka ljóta klúðrið sem það var. Vona að það endurtaki sig ekki.

En nóg um það, nú er kominn matur.

Sjáumst,
Dóri

09.02.2006 14:17

Fleiri myndir

Það eru komnar inn fleiri myndir inn á síðuna hans Frosta.

09.02.2006 01:39

Allt í góðu

Jæja, það gengur allt vel hjá okkur. Frosti er duglegur að borða og sofa og verður bara skýrari með hverjum degi. Naflastrengurinn datt af honum í dag og hann er farinn að fá vel af brjóstamjólk. Hann er stundum pirraður í maganum en hann sefur samt vært og vaknar bara þegar hann er svangur. Það heyrist líka bara eitthvað í honum þegar hann er svangur. Við förum með hann í skoðun á morgun og svo lítur út fyrir að fái að fara í bað á morgun. Það koma allavega inn nýjar fréttir og myndir á morgun.

Þangað til er hér ein hressandi myndasaga frá Wulffmorgenthaler. Mér finnst þeir svo ótrúlega fyndnir, enda höfundar Dolph og Wulff sem er tær snilld.


07.02.2006 17:29

Komin heim og ný heimasíða

Við komum heim í gær. Það var aldeilis vel tímasett hjá okkur því það var allt hvítt þegar við vöknuðum í morgun. Frosti dafnar vel, duglegur að borða og sofa og Silju líður líka strax miklu betur eftir að hún komst heim.

Það er samt ennþá dálítið í að við getum farið að taka á móti gestum en við vitum að það eru margir sem vilja kíkja við og við hlökkum til að sjá ykkur. Við látum ykkur vita þegar þið getið kíkt í heimsókn.

Þangað til getið þið skoðað síðuna hans Frosta, hann er byrjaður að blogga. Eða ekki, við bloggum fyrir hann og setjum inn myndir og dót. Þið getið skoðað það á www.123.is/frosti

Kveðja,
Dóri

05.02.2006 11:19

Frosti



Ég var að henda inn myndum af honum inn í myndaalbúm.

Hann fæddist klukkan 19:01 í gær og var 17 merkur og 54 cm við fæðingu. Strax kraftmikill og lét í sér heyra. Þambaði mjólkina eins og hann hafi aldrei gert annað og steinsofnaði svo. Ótrúlega góður og fallegur strákur.

Ástarþakkir fyrir allar hlýju hugsanirnar til okkar síðustu daga. Við höfum svo sannarlega fundið vel fyrir þeim. Frábært að finna hvað þessi litli drengur á marga góða að. Það er nokkuð ljóst að það verður gestkvæmt í Jórufellinu næstu daga. Vitum ekki alveg hvenær þau mæðgin fá að koma heim en það verður vonandi fljótlega.

Kveðja,
Dóri, stoltur pabbi

04.02.2006 00:21

4.febrúar

Úff, þetta er að skella á. Silja var komin með ca. 3 í útvíkkun um kvöldmat. Læknirinn sem athugaði það gat m.a.s. kollinn og fann fyrir hárlubbanum á honum í gegnum belginn. Það þýðir að hann er þunnur og þetta er allt að fara að gerast. Það sem meira er þá var okkur sagt að ef ekkert færi af stað í nótt yrði belgurinn sennilega sprengdur í fyrramálið. Þá gerist örugglega eitthvað. Við getum því sagt með nokkurri vissu að hann fæðist á morgun, laugardaginn 4. febrúar.

Þetta er allt svo óraunverulegt og ég hef ekki hugmynd um það hvernig mér líður eða hvernig mér á að líða eða hvað er í gangi eða hvað er að fara að gerast. Ég er samt spenntur, ég veit það. Ég hlakka svo til að sjá hann.

Allir að fylgjast með á 8457252.mblog.is - það koma væntanlega myndir þangað asap. Og takk fyrir alla straumana, við finnum svo sannarlega vel fyrir þeim. Fátt, ef nokkuð, jafnast á við það að eiga góða fjölskyldu og vini.

Kveðja,
Dóri

03.02.2006 11:02

ALLT AÐ GERAST... en samt ekki

Jæja, það var nú meiri dagurinn í gær. Silja var búin að vera lasin alla nóttina og um morgunin var hún komin með svo mikinn svima að hún gat varla gengið. Auk þess leið henni eins og hún væri að horfa á sjónvarpið þegar ekkert er í því, þ.e. eintóm snjókorn. Hún átti tíma hjá ljósmóðurinni sinni á heilsugæslunni í Gerðubergi klukkan 13. Hún mældi Silju og fékk hálfgert áfall vegna þess að blóðþrýstingurinn hjá henni var 190/120 sem er slæmt m.a.s. þegar manneskjan er ekki ólétt. Auk þess voru komin 2 stig af próteini í þvaginu þannig að okkur var sagt að drífa okkur beint á spítalann því það þyrfti að leggja Silju inn. Hugsanlega væri hún komin með  meðgöngueitrun. Við brunuðum þangað í hvelli og Silja fór beint í monitor. Það sýndi samt að það var allt í lagi með litla og blóðþrýstingurinn hjá Silju var þá strax kominn niður í  ca. 150/85 sem er nær því sem það er búið að vera hjá henni. Svo var tekin blóðprufa og hún sýndi að það var engin eitrun og engin sýking. Við þurftum því eiginlega bara að bíða og erum ennþá að bíða. Mér var hent heim í gærkvöldi og er á leiðinni aftur á spítalann hvað úr hverju. Heyrði samt í Silju áðan og hún hefur það fínt, biður að heilsa öllum.



Það sem tekur við núna er meiri bið. Læknarnir skoða Silju á eftir og athuga hvernig hún hefur það og svo verður tekin ákvörðun um það hvort hún verði eitthvað sett af stað eða beðið og athugað hvort það gerist eitthvað af sjálfu sér. Það gæti þýtt að hún þurfi að hanga á spítalanum þangað til eitthvað gerist. Hins vegar var hún byrjuð að finna einhverja verki í gærkvöldi sem gætu svo þýtt að hann sé alveg að verða tilbúinn. Það væri ekkert voðalega leiðinlegt ef hann kæmi nú í dag, í dag er nefnilega dagurinn sem Silja hefði átt að fæðast. Svo á Kalli náttúrulega afmæli á morgun og hann var eiginlega búinn að panta hann á sinn afmælisdag. Hannes átti afmæli í gær en hann missti af því. Við vonum bara hið besta og auðvitað óska ég hinum afmælisbörnunum þessa dagana til hamingju með dagana sína.

Ég veit ekki hvort ég kemst eitthvað heim aftur áður en allt fer í gang en hins vegar getið þið fylgst með fréttum á mblogginu mínu. Ég sendi inn myndir og fréttir þangað ef það gerist eitthvað og auðvitað set ég inn mynd af krílinu þegar hann fæðist. Slóðin er 8457252.mblog.is

Kveðja,
Dóri

01.02.2006 00:47

Sápur og dramatík

Einn af kostum þess að hanga heima og bíða og þurfa ekki að mæta í vinnu eða skóla er að maður upplifir svokallað day time TV, eða miðdagssjónvarpið eins og ég kalla það. Þar fara fremstar í flokki sívinsælar sápuóperur. Nú vill svo vel til að við fengum okkur digitalið fyrir ekki svo löngu síðan og getum því horft á alls konar mislélegt miðdagssjónvarp meðan við bíðum eftir að litli kútur ákveði að kíkja í heiminn. Ein mesta snilldin er þó á stöð 2, þættir sem koma úr heimsálfu sem hefur rifið sápuóperuþemað upp í nýjar hæðir. Þar á ég að sjálfsögðu við Suður-Ameríku. Þættirnir heita My Sweet Fat Valentina, eða Mi gorda bella á frummálinu. Tær snilld og það er alveg magnað hvernig hægt er að taka eftir virkilega slæmum leik á máli sem maður skilur ekki. Mæli með því að allir skrópi einn dag úr vinnu eða skóla og horfi á þessa snilld. Á stöð 2 virka daga klukkan 10:20. Mikið af vælandi fólki, dramatískum augnaráðum, yndislega fáránlegu plotti, fólki að tala við sjálft sig og fáránlega hallærislega töff sándtrakki. Allt sem prýða má einn þátt. Sannkallað sjónvarpskonfekt.

Annar kostur er að ég get horft á EM í handbolta þó að það sé sýnt á vinnutíma. Sá til dæmis frábæran leik okkar manna gegn Rússum. Djöfull eru þeir góðir. ÁFRAM ÍSLAND! Leiðinlegt með Alexander samt, hann var að spila vel í þessu móti. Hinir verða bara að taka á og svo vinnum við rest.
  • 1
Flettingar í dag: 595
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 177
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 88541
Samtals gestir: 17747
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 18:54:44