15.12.2007 11:32
Jóladrykkurinn 2007
Appelsínubreezer og maltbjór, fæst í ríkinu
Jæja, þá er komið að umfjöllun um jóladrykkinn 2007. Eins og allir dyggir lesendur þessa bloggs vita er jóladrykkurinn í ár appelsínubreezer og maltbjór.
Allt tilbúið fyrir blöndunina
Með jólaspenning í maga fór ég í vínbúð og keypti mér það sem til þurfti í drykkinn. Ég lét veðurofsann lítið á mig fá, í mínum huga var jólasnjókoma og ekki frá því að ég fynndi lykt af jólamat. Eins og barn sem fær stærsta jólapakkann hélt ég svo heim á leið með góssið.
Eftir tilætlaða kælingu hófst blöndunin sjálf. Ég var búinn að ákveða að blanda þetta ca. eins og venjulega jólablöndu nema sleppa kókinu þar sem það er ekki áfengt. Það þýðir að blöndunin var 2:1, appelsínubreezer í vil.
Appelsínubreezerinn kominn í glasið
Þá var komið að því að setja maltbjórinn út í. Með mikilli einbeitingu og skurðlæknanákvæmni var honum blandað við appelsínubreezerinn.
Einbeitingin var rosaleg enda vandasamt verk
Drykkurinn var tilbúinn. Við fyrstu sýn var allt í góðu lagi. Liturinn minnti óneitanlega á gamla góða jólaölið nema þó heldur rauðara og ljósara ef eitthvað er.
Svona lítur jóladrykkurinn 2007 út
Lyktin var verulega frábrugðin lyktinni sem við eigum að venjast af hinu klassíska jólaöli. Í raun var fátt sameiginlegt með lyktinni af henni og lyktinni af jóladrykknum 2007. Eiginlega var ekki hægt að finna neina maltlykt en í staðinn mjög ávaxtakennda appelsínulykt (þá meina ég blandaða ávexti, geri mér fulla grein fyrir því að appelsína er líka ávöxtur). Þarna komu fram mínar fyrstu efasemdir um ágæti drykksins en þó var haldið áfram af fullum hressleika.
Skál fyrir jólunum!
Bragðið var... ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að lýsa bragðinu. Kannski var blönduninni um að kenna en ég fann lítið maltbragð. Í staðinn var mjög yfirþyrmandi gerviávaxtabragð með frekar skrýtnu eftirbragði. Eftirbragðið minnti mig á bragð sem fylgdi bjór sem pabbi minn bruggaði einu sinni í bílskúrnum. Sá bjór var vel drekkanlegur ef hann var kældur svo nálgaðist frostmark. Jóladrykkurinn 2007 er alveg drekkanlegur en ég mæli með smá tíma til að venjast eftirbragðinu.
Hann var ekki lengi að hverfa
Eftir nokkra sopa var ég farinn að venjast bragðinu og þá reyndist þetta hinn ágætasti drykkur þótt hann væri töluvert frábrugðinn hinu hefðbundna jólaöli. Áhrifin voru nokkuð fljót að segja til sín, enda bæði bjór og romm í drykknum. Það var þó ekki hægt að finna neitt áfengisbragð.
Allt búið, duglegur strákur
Niðurstaðan er sú að drykkurinn olli nokkrum vonbrigðum. Þar gætu væntingar mínar hafa spilað góða rullu þar sem þær voru töluverðar fyrir smökkun. Það er þó viss jólastemning sem fylgir þessum drykk og hver veit nema hann fylgi mér næstu jól. Ég mæli samt ekki með því að klassíska jólaölinu sé skipt út fyrir þennan drykk því ég get ekki ímyndað mér að hann fari vel með mat. Einnig er rétt að taka fram að ekki er ráðlagt að blanda saman áfengistegundum á djamminu og ég er ekki frá því að þess gæti núna. Mér finnst áhrifa gæta enn þrátt fyrir að ég hafi bara blandað mér þennan eina drykk í gærkvöldi. Það gæti þó verið af öðrum völdum, svosem þeim að ég sofnaði seint og vaknaði frekar snemma.
Ég frétti það einnig að hann hafi mælst vel í partýi sem haldið var í gærkvöldi sem gæti þýtt það að drykkurinn sé betri ef búið er að hita upp með öðrum áfengum drykkjum áður en þessi er smakkaður.
Þessi drykkur fær


af fimm mögulegum, aðallega fyrir flippaða jólastemningu og hressandi áhrif.
Gleðileg jól 2007
Það væri svo gaman að heyra frá öllum þeim sem leggja í þennan drykk (og hinum líka), endilega komið með ykkar skoðun á jóladrykknum 2007.
Kveðja,
Dóri blandari
Skrifað af Halldóri
Flettingar í dag: 361
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 197089
Samtals gestir: 31627
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 19:11:37