Færslur: 2006 Apríl

24.04.2006 19:54

Leikhúsið og lífið

Það var ótrúlega gaman að fara á Anímanínu. Eina sem mér fannst leiðinlegt var að hafa ekki farið fyrr svo ég gæti bent fólki á að skella sér. En þetta var góð sýning og það helltist yfir mig þessi tilfinning að þetta er það sem Stúdentaleikhúsið á að vera að gera. Ég mun alltaf bera taugar til Stúdentaleikhússins, eflaust meiri taugar en til Verzló. Þess vegna finnst mér gaman að sjá krakkana gera góða hluti og vekja athygli. Mér er alveg sama hvar VÍ endar í Gettu Betur eða Morfís. Svona er þetta nú bara.

Eftir skemmtilega sýningu tók við skemmtilegt djamm með dansifjöri í Stúdentakjallaranum eftir fjörugt Maríópartý hjá Alla. Maríópartý eru skemmtileg partý. Dansskórnir voru óspart nýttir í kjallaranum.

Sunnudagurinn var ekki eins skemmtilegur. Raunar var hann bara frekar lítið skemmtilegur. Smávegis þynnka í gangi og gamlar veikindatilfinningar að stríða mér. Mér leið líka illa útaf afa mínum en hann var búinn að vera að berjast við krabbamein í 2 mánuði og um helgina var orðið ljóst að þetta var ekki lengur spurning um daga eða vikur heldur klukkutíma. Svo fékk ég þessa leiðinlegu hringingu um kvöldið að láta mig vita að hann væri búinn að kveðja. Það tók frekar mikið á en þó var nokkur huggun í því að hann fékk mjög góða páskahelgi með allri fjölskyldunni sinni og öll börnin hans 8 voru hjá honum þegar hann dó. Það er því alveg hægt að sjá eitthvað jákvætt í þessu en auðvitað er þetta leiðinlegt. Stefnan er því tekin í norðurátt næstu helgi þar sem verður væntanlega farið í 2falda fermingu og jarðarför. Það er komið mjög langt síðan ég fór norður síðast og ég veit að það verður gott að komast þangað eins og alltaf en ég hefði svo viljað fara undir betri kringumstæðum. Ég reikna líka með því að reyna að bruna aftur norður í sumar og reyna þá að njóta þess betur að koma þangað.

Kveðja,
Halldór

22.04.2006 18:55

páskatrallala

Við Silja erum að fara í leikhús. Við ætlum í Loftkastalann að sjá Anímanínu með Stúdentaleikhúsinu. Ég hlakka til. Við ætlum líka að fá okkur bjór. Jafnvel kíkja í bæinn. Og dansa kannski bara.

Páskarnir voru góðir, ein í kotinu og svona. Fengum gott fólk í heimsókn og það var mikið fjör.

Gleðilegt sumar! Sumarið er skemmtilegt. Ég hlakka til að komast út með fjölskyldunni að labba, Frosti er allur að lagast af kvefinu sem hefur verið að hrjá hann í nokkurn tíma. það verður gaman að komast út í heimsóknir og svona. Við þekkjum svo mikið af skemmtilegu fólki sem gaman væri að heimsækja. Þangað til verður það bara að heimsækja okkur.

En núna ætla ég að opna bjór og fara svo í leikhús.

Það er komin ný könnun!!!

Kveðja,
Dóri

08.04.2006 23:10

Spenntur!

Damn!

Halló fólk!

Það er ekki hægt að segja annað en að ég sé orðinn spenntur. Fyrir hverju er ég svona spenntur? Ég er svona líka rosalega spenntur fyrir framtíðinni. Í fyrsta lagi er ég farinn að vinna að því að gera eitthvað á listrænu sviði með því hugarfari að koma því á framfæri. Það finnst mér spennandi. Reyndar er ég með mjög metnaðarfulla hugmynd í gangi en það er bara skemmtilegra. Í öðru lagi er ég loksins loksins búinn að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Það finnst mér ennþá meira spennandi. Ég er búinn að svífa af spenningi síðan ég uppgötvaði hvað ég ætla að verða og það sem er skemmtilegast er að það felur í sér samstarf við fólk sem ég elska auk þess sem ?verkefnið" sjálft er eitthvað sem heillar mig ótrúlega mikið. Ekki amalegt að geta fengið að vinna við eitthvað ótrúlega skemmtilegt með skemmtilegasta fólkinu. En meira um það seinna...

01.04.2006 21:17

Ný skoðanakönnun og góð hugmynd

Þá er það ljóst að í skoðanakönnun sem fór fram á þessari síðu undir yfirskriftinni ?Er þetta töff skoðanakönnun?? var afgerandi sigurvegari sjálfur Bob Saget. Gefum honum gott klapp. Vil ég líka nota tækifærið og benda á að ný skoðanakönnun er hafin. Hún er snúin, það verður að segjast.

Annars var ég að spá í þetta varnarliðsmál og ég held að ég sé bara kominn með lausn á því hvað verður gert við þetta svæði þegar herinn fer. Ég fékk hugljómun þegar ég áttaði mig á því að svæðið er afgirt með það að markmiði að halda fólki frá því að komast inn á svæðið. Þá datt mér í hug að auðvelt væri að snúa því við og varna fólki útgöngu úr svæðinu. Því er tilvalið að senda þangað fólk sem ætti með engu móti að fá að ganga um á meðal almennings. Ég legg þess vegna til að svæðið verði gert að hnakkabýli og allir hnakkar sendir þangað. Ef það verður afgangs pláss þá má senda Krossinn og aðra álíka mikla trúarbjána með þeim. Ásgeir Kolbeins má vera bæjarstjóri og Gilzenegger verður... bara einkaþjálfari eða eitthvað, hverjum er ekki sama? Gilzenegger er fífl!

Mér finnst þetta góð hugmynd rétt eins og mér finnst góð hugmynd að skella mér nú á djamm. Sem ég ætla og að gera. Góðar stundir.

Halldór

  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 19
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 84026
Samtals gestir: 16733
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 14:43:12