19.12.2007 03:53
London saga

Jæja, það er bara komin pressa á mig að halda áfram að blogga. Þýðir ekkert annað en að standa undir þeirri pressu.
Við Silja fórum til London í lok maí á þessu ári. Það var mögnuð ferð, fórum á frábæra tónleika og fengum okkur sitt hvort tattooið í Camden auk þess að skoða okkur um og versla. Við féllum alveg fyrir London og stefnan er að fara þangað aftur við fyrsta tækifæri, hvenær sem það svo verður.
Neðanjarðalestakerfið var mikið notað í þessari ferð, enda jafnast leigubílaferð í London á við svakalegastu rússíbanareið á góðum degi. Í eitt skipti þegar við tókum lest, sjálfsagt til að komast á Oxford Street, tók ég eftir mjög kunnulegu andliti. Ég var alveg pottþéttur á að ég kannaðist við mann sem stóð rétt hjá okkur. Ég benti Silju á hann og hún var ekki frá því að hún kannaðist líka við hann. Ég tengdi hann strax við leikara í breskum sketsaþætti þótt ég gæti ómögulega munað hvað hann héti eða í hvaða þætti hann hafði leikið. Af einhverjum ástæðum datt mér helst í hug snilldarþættirnir The Big Train en var þó ekki viss um það. Var samt algjörlega viss um að þennan mann hafði ég séð í sjónvarpi.
Við tók ansi langur og pirrandi tími þar sem ég reyndi að muna hver í fjandanum þetta væri. Ég staðfesti það að hann hafði ekki komið nálægt The Big Train og það var sama hvaða bresku grínþáttum ég fletti upp, ég fann ekki manninn. Fátt er jafn pirrandi og að geta ekki munað eitthvað sem maður á að muna, eða telur sig eiga að muna.
Svo kom rólegur dagur í vinnunni nokkrum mánuðum seinna og ég fór að skoða youtube. Ég er mjög hrifinn af góðu uppistandi og komst í feitt þar sem ég fann þátt þar sem fjallað var um 100 bestu uppistandarana að mati Channel 4. Ég byrjaði að horfa á niðurtalninguna og fyrsti maðurinn sem ég sé þar er náunginn úr neðanjarðarlestinni, Tim Vine. Það var ekki að furða að ég tengdi hann við sketsaþátt því hann lék í snilldarþáttunum The Sketch Show. Hann átti einnig eitt sinn met í að segja flesta brandara á einum klukkutíma (þar sem brandarinn þurfti að fá hlátur frá áhorfendum til að telja) eða 499 brandara.
Ekki amalegt!
Ég veit ekki með ykkur en mér finnst hann frekar fyndinn.
Skrifað af Halldóri
Flettingar í dag: 361
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 197089
Samtals gestir: 31627
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 19:11:37