15.05.2006 00:12

Sumarið er komið

Sumarið er svo sannarlega komið. Ekki bara úti í náttúrunni og veðrinu heldur einnig í sjálfum mér. Mér líður vel þessa dagana, er í sólskinsskapi.

Vissulega var frekar skrýtið að fara norður um daginn í jarðarför afa. Sérstaklega þar sem það var svo langt síðan ég kom þangað síðast. Að mörgu leyti var rosalega gott að komast norður og þetta voru fallegir dagar þótt þeir hafi líka verið erfiðir. Það er alltaf erfitt að kveðja.

Síðan ég kom suður hef ég þó fundið sumarið í sjálfum mér og er nú fullur eftirvæntingar. Þetta verður gott sumar.

Vil benda fólki á síðuna Tíu þúsund tregawött, sem er ljóðavefrit í víðasta skilningi. Mjög þarft framtak og skemmtilegt.

Ég er líka loksins kominn í hóp svala fólksins. Ég er orðinn hipp og kúl, ég er trendí, ég er artí, ég er lífið, ég er ekki lengur fáviti, ég er kominn á myspace. Hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera við þá síðu en þetta er víst málið. Allir eru að gera þetta. Þetta er vinsælla en kókaín og klámpartý. Minns er myspace.com/onefromtheheart, allir að kíkja og adda og bara hafa gaman. Til þess er lífið.

Mig langar hér að enda á einni sléttubandavísu eftir hann Svein frá Elivogum. Hann var hagyrðingur mikill og orti svo:

    Ljómi dagur, grói grund,
    gefist landans hylli,
    hljómi bragur, léttist lund,
    lifi andans snilli.

Orð að sönnu.

Kveðja,
Halldór
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 251
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 92360
Samtals gestir: 18192
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 10:16:28