12.02.2006 21:08

Mexíkóskar myndir

Lífið er aldeilis ótrúlega skemmtilegt þessa dagana. Gaman að fylgjast með Frosta litla þroskast og hvernig hann verður sífellt skýrari.

Ég fór í afmælispartý til Hannesar og Friðgeirs á föstudaginn. Það var ekkert lítið skemmtilegt að koma þangað. Ég fékk höfðinglegar móttökur frá bæði þeim og öðrum sem ég þekki. Alltaf gott að finna hvað vinum manns þykir vænt um mann. Svo var líka boðið uppá ótrúlega skemmtileg skemmtiatriði; danssöngatriði við Total Eclipse of the Heart, mongóeinkahúmorshiphop og sæta ræðu frá Elísabetu Jökuls. Ég hlakka til þegar ég og Silja komumst aftur á almennilegt leikhúsdjamm.

Í gær fór ég síðan í fjölskyldumat. Það er hefð hjá mömmu og systkinum hennar hér fyrir sunnan að hittast hjá einu þeirra með alla fjölskyldumeðlimi og borða saman. Reyndar stutt hefð en góð hefð samt. Í gær var 3. hittingurinn hjá okkur. Hluti af hefðinni er að hafa alltaf þema í partíinu, þ.e. matnum og tónlist og almennri stemningu. Fyrst var ítalskt þema, svo indverskt og í gær var mexíkóskt þema. Þar fékk ég líka álíka góðar móttökur sem var gaman. Fáránlega góður matur á boðstólnum og góður félagsskapur. Ég og Kolli jr. prófuðum smá gítardjamm sem var töff og ég hlakka til að gera eitthvað meira með honum í músíkinni. Ég tók nokkrar myndir sem ég er búinn að setja inn í myndaalbúmin.

Silvía Nótt... ég hef aldrei þolað þennan karakter og finnst að hún ætti ekki að fá að taka þátt eftir að hafa brotið reglur Eurovisionkeppninnar. En fyrst hún má taka þátt þá vona ég að hún vinni því hennar atriði er langbest. Reyndar er ekki efakorn í mér að hún rústar þessu. Þó getur maður aldrei fullyrt neitt varðandi Eurovision, það sást best þegar ljóta leiðindarbeyglan hún Birgitta Haukdal var kosin framyfir Botnleðjusnilldina um árið. Þvílíka ljóta klúðrið sem það var. Vona að það endurtaki sig ekki.

En nóg um það, nú er kominn matur.

Sjáumst,
Dóri
Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 90514
Samtals gestir: 17960
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:52:22