Færslur: 2007 Desember

31.12.2007 15:04

Síðasta færsla ársinsJæja, þá eru jólin búin. Þau voru bara ansi skemmtileg þetta árið, þrátt fyrir leiðindarveikindabögg. Lítið hægt að gera við því nema reyna að vera hress.

Við fórum í sveitina milli jóla og nýárs, það var mjög gott. Slappað af í góðum félagsskap.

Ég fékk fullt af góðum jólagjöfum, aldrei leiðinlegt að fá skemmtilega jólapakka.

Frá Silju fékk ég flottan Zippo kveikjara og fleyg, pókersett, tattoogjafabréf inní tattoomyndabók og eftirfarandi DVD; Black Books (allar 3 seríurnar), Bill Bailey (3xuppistand), Jimmy Carr (2xuppistand), Ricky Gervais (2xuppistand) og Eddie Izzard (6xuppistand). Heilmikið gaman þar, sérlega skemmtilegt finnst mér að dvd safnið okkar skuli vera að stækka svona. Auk jólagjafanna eru nýlegar viðbætur í safnið allar Jeeves & Wooster seríurnar, A Bit of Fry and Laurie, Hustle, My Name is Earl, Friends og Scrubs. Fyrir eru þó nokkrar Simpsons seríur auk Monty Python snilldarinnar.

Frá Frosta fékk ég disk með handaförum máluðum á, sérdeilis prýðilegt listaverk eftir hann sjálfan. Auk þess fékk ég 3 bækur, Ást æða varps, Blótgælur Kristínar Svövu og Fönixinn hans Eiríks Norðdahl. Aldrei leiðinlegt að fá bækur. Ég fékk líka fleiri bækur í jólagjöf.

Frá mömmu og pabba fékk ég Hníf Abrahams eftir Óttar Martin Norðfjörð. Búinn að lesa hana og hún olli dálitlum vonbrigðum verð ég að segja. Líkindin við Da Vinci Code voru of mikil fyrir minn smekk. Samt ágæt.
Saman fengum við Silja tvær flottar gjafir frá mömmu og pabba, annars vegar hitateppi sem nær frá hálsi og niður bakið. Kemur sér pottþétt mjög vel, Silja er þegar búin að prófa og gefur þessu tvo þumla upp. Hins vegar fengum við bakka undir brauðrétt og hníf við. Gaman að fá eitthvað í búið þótt búið sjálft vanti enn sem komið er. Það kemur þó vonandi hið fyrsta.

Frá tengdó fengum við rafmagns Wok pönnu. Það er víst hægt að grilla á henni og allt mögulegt. Tær snilld.

Frá Ásdísi og þeim fékk ég rúmföt og 2 mjög töff bindi. Alls ekki leiðinlegt

Frá Önnu fékk ég Mugiboogie. Gargandi flott plata.

Frá Elvu, systur Silju, og fjölskyldu fengum við ryksugu. Frosti er líklega manna ánægðastur með það en við erum líka mjög sátt.

Berti, bróðir Silju, og fjölskylda gaf okkur helling af nammi. Ekki leiðinlegt um jólin.

Frá Bandaríkjunum fékk ég mjög flott veski

Frá ömmu og afa fengum við Georg Jensen jólaóróa

Frá fólkinu okkar úr sveitinni fékk ég bókina eftir Þráin Bertels, Englar dauðans minnir mig að hún heiti og The Bourne Ultimatum á dvd.

Frá Hildi fékk ég annað eintak af Fönixinum.

Arngrímur gaf okkur ljóðabók. Því miður alveg stolið úr mér hvaða bók það var en hún er sjálfsagt alveg brilliant.

Síminn ætlar líka að gefa mér jólagjöf en hún er ekki enn komin til landsins (klassísk afsökun en whatthehey), frá þeim fæ ég sem sagt Tívolí útvarp eins og þið gætuð hafa lesið í Fréttablaðinu um daginn.

Ef ég hef gleymt einhverju þá biðst ég innilegarar afsökunar, endilega leiðréttið mig.


Við Silja vorum alveg fáránlega sniðug. Við ákváðum bæði að gefa hinu gjafabréf í tattoo. Ekki nóg með það heldur fórum við á sama stað, House of Pain, og keyptum þar gjafabréf fyrir nákvæmlega sömu upphæð. Ekki heldur nóg með það heldur pökkuðum við því eins inn, földum gjafabréfið inní bók. Eina sem var ekki eins var bókin. Snilld eða hvað?

Þá er bara að halda áfram að vinna, ég ákvað að vera rosalega sniðugur og næla mér í fullt af pening með vinnu  yfir hátíðirnar. Bjóst líka við því að fólk hefði eitthvað þarfara að gera en hringja í 8007000 þessa daga. Ekki aldeilis, fullt af fólki, allt of mikið af því, finnur sér ekkert betra að gera en hringja inn og vera með vesen. Eins gott að það verði ekki margir með vesen á morgun, ég hef margt betra að gera...

Takk fyrir árið, hlakka til að hitta ykkur á því næsta (eða á eftir þau ykkar sem verða á vegi mínum fram að áramótum).
Tívolíbombukveðja,
Dóri

26.12.2007 17:51

Afmælisannar í jólumJólin eru búin að vera nokkuð fín, ég vona að þið hafið öll getað notið þeirra. Reyndar eru alltof margir búnir að eyða tíma sínum í að hringja í 8007000 frekar en að gera eitthvað sniðugra, eins og t.d. að njóta þess að vera í jólafríi. Skil ekki hvað er að svoleiðis fólki...

Núna er hins vegar kominn annar í jólum og það er mjög merkilegur dagur. Það var sem sagt á þessum degi fyrir heilum 3 árum síðan sem Silja samþykkti að verða kærastan mín. Hiklaust einn af þeim dögum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Ótrúlegt hvað það virðist stutt síðan en samt hefur svo rosalega mikið gerst á þessum tíma. Til dæmis er hún ekki lengur kærastan mín núna heldur unnusta, það er algjör snilld. Svo erum við ekki lengur 2 heldur 3, önnur snilld.

Ég hef verið hamingjusamari þessi 3 ár en öll 22 árin á undan og það er Silju að þakka.

Ég elska þig Silja.

Þessi flotta mynd er einmitt tekin á gamlárskvöld eftir að við byrjuðum saman. Þarna erum við að skoða mjög svo skemmtilega áramótakveðju frá Hildi. Góðir tímar.

Kveðja,
Dóri

24.12.2007 00:12

JólinÞar sem 24. desember er kominn langar mig til að óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Það virtist vera sem Silent Night hér fyrir neðan hafi ekki skilað sér að fullu en ég er búinn að bæta úr því. Nú færðu allt lagið með því að smella á Tom Waits myndina hér fyrir neðan. Getur líka valið Skrár hér til hliðar og þar er lagið líka auk annarra góðra jólalaga.

23.12.2007 03:11

JólastuðVeit ekki hvað það er en mér finnst þessi mynd afskaplega jólaleg. Dáldið eins og jólakveðja frá mr. Waits eða poster fyrir svart/hvíta jólamynd.

Annars er ég kominn í frekar hressilegt jólastuð.

Það má  segja eitt jákvætt um myndina Santa Clause með Tim Allen,  í myndinni var að finna þetta lag með hinum fáránlega hæfileikaríka Michael Bublé.


Ég var að uppgötva gríðarlega skemmtilega þætti. Það eru þættir sem heita QI og koma úr smiðju snillingsins Stephen Fry. Það er hægt að nálgast þættina bæði á alluc og youtube. Mæli með að allir kíki á þá.

Og þar sem nú er komin Þorláksmessa er kominn tími á jólalag allra jólalaga, Silent Night, í flutningi meistara Tom Waits. Smellið á myndina hér að ofan til að njóta og uppfyllist jólaanda og hátíðarskapi. Ef þetta virkar ekki þá mæli ég með að jólunum ykkar verði frestað í ár.

Jólakveðja,
Dóri


21.12.2007 13:48

Af grínistum

Meira um Tim Vine. Hann er svona eins og afmælispartýtrúðsútgáfan af Steven Wright. Sannarlega ekki jafnfyndinn og Wright. Persónulega finnst mér hann fyndnari í þáttunum en uppistandinu en hann á sín móment.

Talandi um útgáfur af Steven Wright, hér eru fleiri útgáfur af honum.

Jimmy Carr er Posh útgáfan af Steven Wright

Mitch Hedberg er hasshausaútgáfan af Steven Wright

Demetri Martin er leikskólaútgáfan af Steven Wright

Larry the Cable Guy er ekki fyndinn!!!

19.12.2007 03:53

London sagaJæja, það er bara komin pressa á mig að halda áfram að blogga. Þýðir ekkert annað en að standa undir þeirri pressu.

Við Silja fórum til London í lok maí á þessu ári. Það var mögnuð ferð, fórum á frábæra tónleika og fengum okkur sitt hvort tattooið í Camden auk þess að skoða okkur um og versla. Við féllum alveg fyrir London og stefnan er að fara þangað aftur við fyrsta tækifæri, hvenær sem það svo verður.

Neðanjarðalestakerfið var mikið notað í þessari ferð, enda jafnast leigubílaferð í London á við svakalegastu rússíbanareið á góðum degi. Í eitt skipti þegar við tókum lest, sjálfsagt til að komast á Oxford Street, tók ég eftir mjög kunnulegu andliti. Ég var alveg pottþéttur á að ég kannaðist við mann sem stóð rétt hjá okkur. Ég benti Silju á hann og hún var ekki frá því að hún kannaðist líka við hann. Ég tengdi hann strax við leikara í breskum sketsaþætti þótt ég gæti ómögulega munað hvað hann héti eða í hvaða þætti hann hafði leikið. Af einhverjum ástæðum datt mér helst í hug snilldarþættirnir The Big Train en var þó ekki viss um það. Var samt algjörlega viss um að þennan mann hafði ég séð í sjónvarpi.

Við tók ansi langur og pirrandi tími þar sem ég reyndi að muna hver í fjandanum þetta væri. Ég staðfesti það að hann hafði ekki komið nálægt The Big Train  og það var sama hvaða bresku grínþáttum ég fletti upp, ég fann ekki manninn. Fátt er jafn pirrandi og að geta ekki munað eitthvað sem maður á að muna, eða telur sig eiga að muna.

Svo kom rólegur dagur í vinnunni nokkrum mánuðum seinna og ég fór að skoða youtube. Ég er mjög hrifinn af góðu uppistandi og komst í feitt þar sem ég fann þátt þar sem fjallað var um 100 bestu uppistandarana að mati Channel 4. Ég byrjaði að horfa á niðurtalninguna og fyrsti maðurinn sem ég sé þar er náunginn úr neðanjarðarlestinni, Tim Vine. Það var ekki að furða að ég tengdi hann við sketsaþátt því hann lék í snilldarþáttunum The Sketch Show. Hann átti einnig eitt sinn met í að segja flesta brandara á einum klukkutíma (þar sem brandarinn þurfti að fá hlátur frá áhorfendum til að telja) eða 499 brandara.

Ekki amalegt!

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst hann frekar fyndinn.

15.12.2007 11:32

Jóladrykkurinn 2007


Appelsínubreezer og maltbjór, fæst í ríkinu

Jæja, þá er komið að umfjöllun um jóladrykkinn 2007. Eins og allir dyggir lesendur þessa bloggs vita er jóladrykkurinn í ár appelsínubreezer og maltbjór.


Allt tilbúið fyrir blöndunina

Með jólaspenning í maga fór ég í vínbúð og keypti mér það sem til þurfti í drykkinn. Ég lét veðurofsann lítið á mig fá, í mínum huga var jólasnjókoma og ekki frá því að ég fynndi lykt af jólamat. Eins og barn sem fær stærsta jólapakkann hélt ég svo heim á leið með góssið.

Eftir tilætlaða kælingu hófst blöndunin sjálf. Ég var búinn að ákveða að blanda þetta ca. eins og venjulega jólablöndu nema sleppa kókinu þar sem það er ekki áfengt. Það þýðir að blöndunin var 2:1, appelsínubreezer í vil.


Appelsínubreezerinn kominn í glasið

Þá var komið að því að setja maltbjórinn út í. Með mikilli einbeitingu og skurðlæknanákvæmni var honum blandað við appelsínubreezerinn.


Einbeitingin var rosaleg enda vandasamt verk

Drykkurinn var tilbúinn. Við fyrstu sýn var allt í góðu lagi. Liturinn minnti óneitanlega á gamla góða jólaölið nema þó heldur rauðara og ljósara ef eitthvað er.


Svona lítur jóladrykkurinn 2007 út

Lyktin var verulega frábrugðin lyktinni sem við eigum að venjast af hinu klassíska jólaöli. Í raun var fátt sameiginlegt með lyktinni af henni og lyktinni af jóladrykknum 2007. Eiginlega var ekki hægt að finna neina maltlykt en í staðinn mjög ávaxtakennda appelsínulykt (þá meina ég blandaða ávexti, geri mér fulla grein fyrir því að appelsína er líka ávöxtur). Þarna komu fram mínar fyrstu efasemdir um ágæti drykksins en þó var haldið áfram af fullum hressleika.


Skál fyrir jólunum!

Bragðið var... ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að lýsa bragðinu. Kannski var blönduninni um að kenna en ég fann lítið maltbragð. Í staðinn var mjög yfirþyrmandi gerviávaxtabragð með frekar skrýtnu eftirbragði. Eftirbragðið minnti mig á bragð sem fylgdi bjór sem pabbi minn bruggaði einu sinni í bílskúrnum. Sá bjór var vel drekkanlegur ef hann var kældur svo nálgaðist frostmark. Jóladrykkurinn 2007 er alveg drekkanlegur en ég mæli með smá tíma til að venjast eftirbragðinu.


Hann var ekki lengi að hverfa

Eftir nokkra sopa var ég farinn að venjast bragðinu og þá reyndist þetta hinn ágætasti drykkur þótt hann væri töluvert frábrugðinn hinu hefðbundna jólaöli. Áhrifin voru nokkuð fljót að segja til sín, enda bæði bjór og romm í drykknum. Það var þó ekki hægt að finna neitt áfengisbragð.


Allt búið, duglegur strákur

Niðurstaðan er sú að drykkurinn olli nokkrum vonbrigðum. Þar gætu væntingar mínar hafa spilað góða rullu þar sem þær voru töluverðar fyrir smökkun. Það er þó viss jólastemning sem fylgir þessum drykk og hver veit nema hann fylgi mér næstu jól. Ég mæli samt ekki með því að klassíska jólaölinu sé skipt út fyrir þennan drykk því ég get ekki ímyndað mér að hann fari vel með mat. Einnig er rétt að taka fram að ekki er ráðlagt að blanda saman áfengistegundum á djamminu og ég er ekki frá því að þess gæti núna. Mér finnst áhrifa gæta enn þrátt fyrir að ég hafi bara blandað mér þennan eina drykk í gærkvöldi. Það gæti þó verið af öðrum völdum, svosem þeim að ég sofnaði seint og vaknaði frekar snemma.

Ég frétti það einnig að hann hafi mælst vel í partýi sem haldið var í gærkvöldi sem gæti þýtt það að drykkurinn sé betri ef búið er að hita upp með öðrum áfengum drykkjum áður en þessi er smakkaður.

Þessi drykkur fær

af fimm mögulegum, aðallega fyrir flippaða jólastemningu og hressandi áhrif.


Gleðileg jól 2007

Það væri svo gaman að heyra frá öllum þeim sem leggja í þennan drykk (og hinum líka), endilega komið með ykkar skoðun á jóladrykknum 2007.

Kveðja,
Dóri blandari

14.12.2007 22:14

Meira jólastuðHvað segiði, einhver búin/n að smakka jóladrykkinn minn? Eru kannski allir að bíða eftir að ég setji inn gagnrýni. Hún kemur á næstu dögum.

Í tilefni þess að nú eru 10 dagar til jóla (og vondumyndakvöld!!!) set ég inn einn skemmtilegan hlekk. Smellið á myndina fyrir ofan til að komast á síðu sem hefur að geyma hvorki meira né minna en 101 jólavideo sem hægt er að horfa á í gegnum internetið. Vissulega misskemmtileg en margir gullmolar þarna sem pumpa upp jólaskapið.

Dórakveðja, Jóli

13.12.2007 11:04

Breska þingið

Ég vildi að ég væri áskrifandi að stöð sem sýndi beint frá breska þinginu. Það er sko alvöru sjónvarpsefni. Af einhverjum ástæðum náum við Sky News án þess að vera með nokkra áskrift og þar er stundum sjónvarpað beint frá þinginu ef það er eitthvað sérstakt um að vera.

Fyrirkomulagið á breska þinginu er ansi sérstakt og þegar meðlimir þess eru að rökræða hin ýmsu mál er ekki laust við að það fari að minna mann frekar mikið á einhvers konar battl þar sem menn skiptast á að stíga fram og skjóta á hinn aðilann, dyggilega studdur af sínu liði. Þeir sem sitja fyrir aftan eru duglegir að styðja sinn mann með alls kyns köllum og jafnframt láta þeir heyra í sér þegar þeim mislíkar það sem hinn segir. Maður bíður bara eftir því að einhver segi Y'all just mad. Because today, you suckers got served.

Ég legg til að þetta fyrirkomulag verði tekið upp hérna, þá væri gaman að kíkja á áhorfendapalla Alþingis eða horfa á Alþingisrásina.


Hér má sjá The Battle of the Upper Class Twits

11.12.2007 13:36

Ekki stela þessari færslu!


Rosalega er desember skemmtilegur mánuður!

Ég geri ráð fyrir að allir séu að komast í óhemjuglæsilegt jólaskap, þökk sé jólamyndalistanum mínum. Búnir að útvega sér The Holiday fyrir kvöldið og baka piparkökur með. Er það ekki? Ég er allavega kominn í jólastuð eins og sést á nýju bloggútliti.

Mér finnst rosalega skemmtilegt að eiga gott efni á DVD, hvort sem eru bíómyndir eða sjónvarpsþættir. Á sumum þeirra kemur þessi auglýsing sem er hér fyrir ofan í hvert skipti sem ég set diskinn í spilarann og get ég þá ekkert gert annað en að horfa á hana til enda áður en ég get byrjað að spila myndina/þættina. Það finnst mér ákaflega pirrandi. Mér finnst þetta frekar skondin leið til að koma skilaboðunum á framfæri, að bögga þá sem raunverulega keyptu sér efnið í stað þess að stela því á netinu. Fær mig eiginlega til að langa frekar til að sækja mér efnið á netinu...

Nóg um það, ég er kominn með jólablönduna í ár. Maltbjór og appelsínubreezer! Einföld snilld, gamla góða jólablandan nema áfeng. Er hægt að biðja um eitthvað betra? Hef reyndar ekki smakkað en kem með stjörnugjöf þegar veður leyfir. Þið getið líka hent á mig kommenti ef þið ákveðið að malla svoleiðis blöndu, t.d. með slæmumyndakvöldinu á föstudaginn. Ef það er eitthvað sem bætir Santa Claus conquers the Martians þá er það áfengi. Held þó að allt áfengið í heiminum dugi ekki til að bæta Jingle All the Way.


  • 1
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 35
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 187249
Samtals gestir: 68295
Tölur uppfærðar: 3.8.2021 23:01:07