24.04.2006 19:54

Leikhúsið og lífið

Það var ótrúlega gaman að fara á Anímanínu. Eina sem mér fannst leiðinlegt var að hafa ekki farið fyrr svo ég gæti bent fólki á að skella sér. En þetta var góð sýning og það helltist yfir mig þessi tilfinning að þetta er það sem Stúdentaleikhúsið á að vera að gera. Ég mun alltaf bera taugar til Stúdentaleikhússins, eflaust meiri taugar en til Verzló. Þess vegna finnst mér gaman að sjá krakkana gera góða hluti og vekja athygli. Mér er alveg sama hvar VÍ endar í Gettu Betur eða Morfís. Svona er þetta nú bara.

Eftir skemmtilega sýningu tók við skemmtilegt djamm með dansifjöri í Stúdentakjallaranum eftir fjörugt Maríópartý hjá Alla. Maríópartý eru skemmtileg partý. Dansskórnir voru óspart nýttir í kjallaranum.

Sunnudagurinn var ekki eins skemmtilegur. Raunar var hann bara frekar lítið skemmtilegur. Smávegis þynnka í gangi og gamlar veikindatilfinningar að stríða mér. Mér leið líka illa útaf afa mínum en hann var búinn að vera að berjast við krabbamein í 2 mánuði og um helgina var orðið ljóst að þetta var ekki lengur spurning um daga eða vikur heldur klukkutíma. Svo fékk ég þessa leiðinlegu hringingu um kvöldið að láta mig vita að hann væri búinn að kveðja. Það tók frekar mikið á en þó var nokkur huggun í því að hann fékk mjög góða páskahelgi með allri fjölskyldunni sinni og öll börnin hans 8 voru hjá honum þegar hann dó. Það er því alveg hægt að sjá eitthvað jákvætt í þessu en auðvitað er þetta leiðinlegt. Stefnan er því tekin í norðurátt næstu helgi þar sem verður væntanlega farið í 2falda fermingu og jarðarför. Það er komið mjög langt síðan ég fór norður síðast og ég veit að það verður gott að komast þangað eins og alltaf en ég hefði svo viljað fara undir betri kringumstæðum. Ég reikna líka með því að reyna að bruna aftur norður í sumar og reyna þá að njóta þess betur að koma þangað.

Kveðja,
Halldór
Flettingar í dag: 80
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 90565
Samtals gestir: 17982
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 18:59:15