24.12.2006 11:02

Gleðileg jól!



Þessi er öflugur.

Ég vona allavega að allir sem ég þekki njóti jólanna. Við ætlum svo sannarlega að njóta þeirra og Frosti er þokkalega kominn í jólaskap. Hann biður líka að heilsa.

Gleðileg jól!

Kv.
Dóri

27.10.2006 18:37

And now...



Þetta er John Cleese. Hann á afmæli í dag. Til hamingju með daginn John Cleese!

Annars er allt gott að frétta af okkur og svona. Bara stuð.

Mér finnst ótrúlega merkilegt að meirihluti jarðarbúa virðast hafa afskaplega mikil tilfinningaleg tengsl við hvali. Ég skil það ekki. Ég sé ekki hvað gerir hvali merkilegri en önnur dýr...

En talandi um Kárahnjúkavirkjun... er ég virkilega sá eini sem gæti ekki verið meira sama?

Og að lokum... þrípunktarnir í þessari... færslu... eru... í boði... Benedikts Lafleur... ... ...

Kv.
Dóri

22.08.2006 18:16

Orphans!



Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá er ég afskaplega mikill aðdáandi Tom Waits. Svo mikill að ég íhugaði alvarlega hvort það væri ekki einhver leið fyrir mig að komast til Bandaríkjanna nú í byrjun ágúst þegar Waitsarinn fór í tveggja vikna tónleikaferð.

Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvort ég var ekki hoppandi glaður þegar ég komst að því að hann er að fara að gefa út hvorki meira né minna en þrefalda plötu. 54 lög! Þar af 30 nýjar upptökur! Þvílík tær snilld!!! Allt í allt yfir 3 tímar og 94 síðna bleðlingur fylgir með. Kemur út 20. nóvember í US of A og 21. nóvember í Evrópu. Vá, hvað ég get ekki beðið! Fyrir áhugasama er hægt að sjá meira hérna. Þar er hægt að sjá m.a. lagalista og ummæli Waits sjálfs um gripinn.

Svo er hægt að fara að láta sig dreyma um aðra tónleikaferð í framhaldinu, jafnvel til Evrópu. Hann verður hvort sem er á klakanum um svipað leyti, kannski nær einhver að plögga Waits tónleika á Íslandi. Það væri án efa mesta snilld í heimi.

Annars er uppáhaldsþáttur okkar Silju þessa dagana Rockstar:Supernova. Merkilegt hvað það er skemmtilegt að horfa á raunveruleikaþætti þegar Íslendingur er að "keppa". Svo er hann bara massagóður hann Magni. Hins vegar get ég varla sagt að ég vonist til að hann vinni því gaurarnir í Supernova eru svo miklar steikur. En samt, gaman að þessu.

Ég las upp ljóð á Menningar"nótt". Ég kemst ekki yfir það ennþá hvað mér finnst bjánalegt að þetta heiti Menningarnótt. Dagskráin byrjar klukkan 11 um morguninn og endar klukkan hálf ellefu um kvöldið. Halló!!?? Nótt kemur hvergi nálægt þessu. Ekki einu sinni Silvía Nótt!!! (búrúmm tiss!)

En allavega, ég las upp ljóð ásamt félögum mínum í Nykri. Það var bara gaman. Þetta er alveg skemmtileg hátíð, þrátt fyrir rangnefnið.

Kveðja,
Dóri

17.06.2006 18:52

Áfram fokking ÍSLAND!!!!!!

Vá vá vá vá vá vá vá vá vá vá vaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaáááááá!!!!!!!

Eruði ekki að grínast? Þvílíkur leikur!! Þetta er svo gaman. Ég hef aldrei séð annan eins karakter í einu liði og í íslenska landsliðinu núna rétt áðan. Það er sætara en sykurbætt hunang í sýrópi að vinna Svíana svona. Gaman gaman. Ég á ekki orð. Takk fyrir!!!!



P.s. ég horfði á leikinn einn í litlu herbergi og lét alveg eins og bavíani. Ég stökk upp og lamdi á lærið á mér og gargaði á sjónvarpið og klappaði höndum og gat ekki með nokkru móti setið kyrr. Enda þurfti ég að pissa frá 10. mínútu seinni hálfleiks.

27.05.2006 23:15

Blús í júlí

Við Silja erum búin að ákveða að fara norður í land í júlí. Við ætlum að heimsækja alla ættingja okkar þar og skella okkur á hina árlegu blúshátíð á Ólafsfirði. Í ár verður hún 6. - 8. júlí og ég hlakka ekkert smá til að komast aftur á þessa hátíð. Það eru nokkur ár síðan ég fór síðast en þá var líka súperdúperfjör. Hér má sjá það sem komið er á dagskrána en það getur verið að eitthvað bætist við. Svo má alveg gera ráð fyrir workshopi eða djammsessioni (svo maður noti nú hágæða íslensku). Það er sko ekki leiðinlegt. Ég mæli með þessari hátíð og það væri ekkert nema tær snilld ef einhver er í stuði til að koma með okkur. Hvað segið þið um það, eigum við ekki bara að breyta þessu í eina góða hópferð?

Svo ætluðum við alltaf að nota júlímánuð til þess að skíra Frostaling, svona þar sem ég klára fæðingarorlofið mitt í júlí, en það virðist eitthvað ætla að frestast. Veit ekki alveg hvernig það fer en það kemur allt í ljós. Eins og Declan vinur minn segir alltaf; þetta reddast!


21.05.2006 22:22

Oh Lordi!



Jæja já, Finnarnir bara! Ha?! Þetta var nú meiri júróvisjónkeppnin. Við erum víst á leið til Finnlands að ári. Lofuðum því í hressleikanum þegar nokkuð var liðið á stigagjöfina að við myndum fara ef þeir ynnu. Verðum að standa við það, ég held að það verði stuð. Finnar eru hressir. Allavega Tomas Lundin.

Niðurstöður komnar úr skoðanakönnununum. Mesti töffarinn er Johnny Depp. Jafnir í öðru sæti eru Chuck Norris og Bob Saget. Bob Saget kemur á óvart verð ég að segja. Dálítið eins og Litháen og Írland í Júróvisjón. Furðulegt að þau lönd hafi fengið stig yfir höfuð. Bob Saget er samt alveg töffari. Bara ekki meiri töffari en Jack White, Nick Cave eða Tom Waits.

Tony Danza rústaði hvað er betr'en að dansa skoðanakönnuninni. Held það sé tími á að þeir battli, Tony og Bob. Allir að taka þátt í þeirri skoðanakönnun.

Nú held ég samt að það sé kominn tími á að ég fari að stalka Dag Kára. Ég ætla sko þokkalega að reyna að fá smáhlutverk í kvikmyndinni sem hann ætlar að gera, maður verður nú að reyna að hitta goðið þegar það kemur á klakann. Tom Waits á Íslandi! Þvílík snargeðveiki!!

Sá The DaVinci Code áðan. Fínasta ræma alveg. Ekki eins slæm og ég bjóst við. Ágæt skemmtun. Dáldið skrýtin klipping samt. Á Tom Hanks það er... harr harr!

Sá V for Vendetta um daginn. Drullufín mynd. Mjög flott.

Var búinn að gleyma hvað það getur verið gaman að fara í bíó. Við ætlum að fara að gera meira af því. Spurning hvaða mynd við kíkjum á næst. Einhverjar hugmyndir?

Annars bið ég bara að heilsa ,vona að ættingjarnir hafi það gott og svona.

Kveðja,
Dóri

15.05.2006 00:12

Sumarið er komið

Sumarið er svo sannarlega komið. Ekki bara úti í náttúrunni og veðrinu heldur einnig í sjálfum mér. Mér líður vel þessa dagana, er í sólskinsskapi.

Vissulega var frekar skrýtið að fara norður um daginn í jarðarför afa. Sérstaklega þar sem það var svo langt síðan ég kom þangað síðast. Að mörgu leyti var rosalega gott að komast norður og þetta voru fallegir dagar þótt þeir hafi líka verið erfiðir. Það er alltaf erfitt að kveðja.

Síðan ég kom suður hef ég þó fundið sumarið í sjálfum mér og er nú fullur eftirvæntingar. Þetta verður gott sumar.

Vil benda fólki á síðuna Tíu þúsund tregawött, sem er ljóðavefrit í víðasta skilningi. Mjög þarft framtak og skemmtilegt.

Ég er líka loksins kominn í hóp svala fólksins. Ég er orðinn hipp og kúl, ég er trendí, ég er artí, ég er lífið, ég er ekki lengur fáviti, ég er kominn á myspace. Hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera við þá síðu en þetta er víst málið. Allir eru að gera þetta. Þetta er vinsælla en kókaín og klámpartý. Minns er myspace.com/onefromtheheart, allir að kíkja og adda og bara hafa gaman. Til þess er lífið.

Mig langar hér að enda á einni sléttubandavísu eftir hann Svein frá Elivogum. Hann var hagyrðingur mikill og orti svo:

    Ljómi dagur, grói grund,
    gefist landans hylli,
    hljómi bragur, léttist lund,
    lifi andans snilli.

Orð að sönnu.

Kveðja,
Halldór

24.04.2006 19:54

Leikhúsið og lífið

Það var ótrúlega gaman að fara á Anímanínu. Eina sem mér fannst leiðinlegt var að hafa ekki farið fyrr svo ég gæti bent fólki á að skella sér. En þetta var góð sýning og það helltist yfir mig þessi tilfinning að þetta er það sem Stúdentaleikhúsið á að vera að gera. Ég mun alltaf bera taugar til Stúdentaleikhússins, eflaust meiri taugar en til Verzló. Þess vegna finnst mér gaman að sjá krakkana gera góða hluti og vekja athygli. Mér er alveg sama hvar VÍ endar í Gettu Betur eða Morfís. Svona er þetta nú bara.

Eftir skemmtilega sýningu tók við skemmtilegt djamm með dansifjöri í Stúdentakjallaranum eftir fjörugt Maríópartý hjá Alla. Maríópartý eru skemmtileg partý. Dansskórnir voru óspart nýttir í kjallaranum.

Sunnudagurinn var ekki eins skemmtilegur. Raunar var hann bara frekar lítið skemmtilegur. Smávegis þynnka í gangi og gamlar veikindatilfinningar að stríða mér. Mér leið líka illa útaf afa mínum en hann var búinn að vera að berjast við krabbamein í 2 mánuði og um helgina var orðið ljóst að þetta var ekki lengur spurning um daga eða vikur heldur klukkutíma. Svo fékk ég þessa leiðinlegu hringingu um kvöldið að láta mig vita að hann væri búinn að kveðja. Það tók frekar mikið á en þó var nokkur huggun í því að hann fékk mjög góða páskahelgi með allri fjölskyldunni sinni og öll börnin hans 8 voru hjá honum þegar hann dó. Það er því alveg hægt að sjá eitthvað jákvætt í þessu en auðvitað er þetta leiðinlegt. Stefnan er því tekin í norðurátt næstu helgi þar sem verður væntanlega farið í 2falda fermingu og jarðarför. Það er komið mjög langt síðan ég fór norður síðast og ég veit að það verður gott að komast þangað eins og alltaf en ég hefði svo viljað fara undir betri kringumstæðum. Ég reikna líka með því að reyna að bruna aftur norður í sumar og reyna þá að njóta þess betur að koma þangað.

Kveðja,
Halldór

22.04.2006 18:55

páskatrallala

Við Silja erum að fara í leikhús. Við ætlum í Loftkastalann að sjá Anímanínu með Stúdentaleikhúsinu. Ég hlakka til. Við ætlum líka að fá okkur bjór. Jafnvel kíkja í bæinn. Og dansa kannski bara.

Páskarnir voru góðir, ein í kotinu og svona. Fengum gott fólk í heimsókn og það var mikið fjör.

Gleðilegt sumar! Sumarið er skemmtilegt. Ég hlakka til að komast út með fjölskyldunni að labba, Frosti er allur að lagast af kvefinu sem hefur verið að hrjá hann í nokkurn tíma. það verður gaman að komast út í heimsóknir og svona. Við þekkjum svo mikið af skemmtilegu fólki sem gaman væri að heimsækja. Þangað til verður það bara að heimsækja okkur.

En núna ætla ég að opna bjór og fara svo í leikhús.

Það er komin ný könnun!!!

Kveðja,
Dóri

08.04.2006 23:10

Spenntur!

Damn!

Halló fólk!

Það er ekki hægt að segja annað en að ég sé orðinn spenntur. Fyrir hverju er ég svona spenntur? Ég er svona líka rosalega spenntur fyrir framtíðinni. Í fyrsta lagi er ég farinn að vinna að því að gera eitthvað á listrænu sviði með því hugarfari að koma því á framfæri. Það finnst mér spennandi. Reyndar er ég með mjög metnaðarfulla hugmynd í gangi en það er bara skemmtilegra. Í öðru lagi er ég loksins loksins búinn að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Það finnst mér ennþá meira spennandi. Ég er búinn að svífa af spenningi síðan ég uppgötvaði hvað ég ætla að verða og það sem er skemmtilegast er að það felur í sér samstarf við fólk sem ég elska auk þess sem ?verkefnið" sjálft er eitthvað sem heillar mig ótrúlega mikið. Ekki amalegt að geta fengið að vinna við eitthvað ótrúlega skemmtilegt með skemmtilegasta fólkinu. En meira um það seinna...

01.04.2006 21:17

Ný skoðanakönnun og góð hugmynd

Þá er það ljóst að í skoðanakönnun sem fór fram á þessari síðu undir yfirskriftinni ?Er þetta töff skoðanakönnun?? var afgerandi sigurvegari sjálfur Bob Saget. Gefum honum gott klapp. Vil ég líka nota tækifærið og benda á að ný skoðanakönnun er hafin. Hún er snúin, það verður að segjast.

Annars var ég að spá í þetta varnarliðsmál og ég held að ég sé bara kominn með lausn á því hvað verður gert við þetta svæði þegar herinn fer. Ég fékk hugljómun þegar ég áttaði mig á því að svæðið er afgirt með það að markmiði að halda fólki frá því að komast inn á svæðið. Þá datt mér í hug að auðvelt væri að snúa því við og varna fólki útgöngu úr svæðinu. Því er tilvalið að senda þangað fólk sem ætti með engu móti að fá að ganga um á meðal almennings. Ég legg þess vegna til að svæðið verði gert að hnakkabýli og allir hnakkar sendir þangað. Ef það verður afgangs pláss þá má senda Krossinn og aðra álíka mikla trúarbjána með þeim. Ásgeir Kolbeins má vera bæjarstjóri og Gilzenegger verður... bara einkaþjálfari eða eitthvað, hverjum er ekki sama? Gilzenegger er fífl!

Mér finnst þetta góð hugmynd rétt eins og mér finnst góð hugmynd að skella mér nú á djamm. Sem ég ætla og að gera. Góðar stundir.

Halldór

30.03.2006 23:28

Vinna sminna

Jahámm, sitt hvað búið að gerast síðan síðast. Við þurftum að eyða einni vinnuviku á Barnaspítalanum því Frosti þurfti að fara í aðgerð. Meira um það á síðunni hans. Þetta var ótrúlega erfiður tími, tekur á að horfa upp á barnið sitt svona veikt og finnast maður ekki geta gert neitt. En hann er allur að braggast og byrjaður að þamba mjólk á ný án þess að æla. Svo er hann líka byrjaður að brosa, hjala og hló í fyrsta skiptið núna í kvöld, það er lífið.

Ég er annars byrjaður að vinna aftur, byrjaði á þriðjudaginn. Það er ekki hresst, ég vildi að ég væri ennþá í fæðingarorlofi. Ekki það að vinnan sé slæm í sjálfu sér, ég er alveg sáttur í vinnunni. Vildi bara frekar vera heima hjá fjölskyldunni minni.

Ég skil síðan ekki þessa pælingu hjá Stúdentaleikhúsinu að frumsýna nýja leikritið sitt á miðvikudegi, 5. apríl nánar tiltekið. Við Silja vorum búin að hlakka svo til að komast á almennilegt Stúdentaleikhúsfrumsýningardjamm en svo lítur út fyrir að við komumst ekki einu sinni á frumsýninguna. Skandall! Hlakka samt til að sjá sýninguna.

Svo vil ég senda hamingjuóskir til Myrru og fjölskyldu með hana Láru litlu. Algjört krútt og ég er viss um að hún og Frosti verða góðir vinir.

Jæja, þreytan segir til sín og svefninn kallar. Vona að þið séuð ekki hætt að kíkja hingað inn vegna bloggskorts.

Kveðja,
Dóri

15.03.2006 13:46

Post traumatic stress disorder

Ég veit ekki alveg hver er rétta þýðingin á post traumatic stress disorder (eða ptsd) en það er í öllu falli hrikalegt ástand. Á The Learning Center (www.thelearningcenter.net) stendur til dæmis þetta um ptsd:

Post-Traumatic Stress Disorder (PTSD) is a debilitating condition that follows a terrifying event. Often, people with PTSD have persistent frightening thoughts and memories of their ordeal and feel emotionally numb...

The event that triggers it may be something that threatened the person's life or the life of someone close to him or her. Or it could be something witnessed, such as mass destruction after a plane crash.

Whatever the source of the problem, some people with PTSD repeatedly relive the trauma in the form of nightmares and disturbing recollections during the day. They may also experience sleep problems, depression, feeling detached or numb, or being easily startled.eeing things that remind them of the incident may be very distressing, which could lead them to avoid certain places or situations that bring back those memories. Anniversaries of the event are often very difficult.

Nú hef ég alltaf haldið að til þess að fá ptsd þyrfti maður að lenda í einhverjum ógnvænlega hrikalegum atburði sem hefur áhrif á líf þitt til frambúðar. Aldrei datt mér í hug að hægt væri að fá ptsd við það eitt að fara í bíó. En þar hafði ég rangt fyrir mér.

Fyrir 6 árum síðan var ég ungur og saklaus piltur, laus við allar heimsins áhyggjur og vissi lítið um grimmd alheimsins og miskunnarleysi fólks sem er rotið inn að beini. Ég hafði gaman af lífinu og naut þess að gera eitthvað skemmtilegt, eins og t.d. að fara í bíó. Lífið var líka gott og allt virtist brosa við mér.

Þegar ég sá auglýsta óvissuforsýningu í Regnboganum óraði mig ekki fyrir þeim hörmungum sem senn voru að fara að gerast í mínu lífi. Glaður í bragði og með eftirvæntingu í huga rölti ég í bíóið og keypti mér miða. Spennan jókst eftir því sem leið á daginn og mér fannst þessi áhætta mín gefa nýjan tón, eða blæ, á litróf lífsins. Það var því einn spenntur ég sem settist niður í myrkum bíósal Regnbogans á þessu afdrifaríka föstudagskvöldi árið 2000.

Um leið og myndin byrjaði helltist yfir mig ónotatilfinning því þá kom í ljós að þetta var eina myndin af þremur mögulegum sem mig langaði ekki til að sjá. Ég sat sem lamaður í sætinu mínu og gat mig hvergi  hreyft. Mér leið eins og Alexander de Large úr Clockwork Orange þar sem hann var neyddur til að horfa á sífellt meiri viðbjóð. Ég fann ósýnilega hönd halda mér föstum og galopna augu mín svo ég gat ekkert annað en horft áfram. Myrkrið í salnum varð að skrýmsli sem gleypti mig og hver rammi á tjaldinu virkaði á mig eins og bit frá skrýmslinu meðan það tuggði mig vel og vandlega.

Myndin sem ég er að tala um er að sjálfsögðu Big Momma's House og er afsprengi djöfulsins. Martin Lawrence er sjálfur antikristur og ég er búinn að missa töluna á því hversu oft ég hef vaknað í svitabaði eftir þessa hrikalegu lífsreynslu. Enn í dag fæ ég krampakast og dett í gólfið ef ég sé í ljótt fésið á Lawrence, hvað þá ef ég sé honum bregða fyrir í einhverju sem ég er að horfa á. Að kalla þennan mann grínleikara er sama ónefni og að segja að Adolph Hitler hafi verið mannvinur og jafnréttissinni.

Af hverju er ég að rifja þennan óskapnað upp? Jú, vegna þess að einhverjir rotnir djöflasynir í Hollywood hafa ákveðið að Big Momma's House hafi ekki verið nógu léleg, ekki nógu ill, ekki nógu mannskemmandi. Þess vegna er nú búið að gera Big Momma's House 2! Oh, the humanity!

Og til að bæta gráu ofan á svart er búið að taka út úr dæminu einu ástæðuna fyrir því að ég framdi ekki sjálfsmorð yfir fyrri myndinni, Paul Giamatti. Enda er BMH2 sem stendur í 81. sæti yfir 100 lélegustu myndir allra tíma skv. imdb.com með 2,9 í einkunn.

Það þarf varla að taka það fram en ég ætla ekki að sjá þessa mynd. Aldrei! Ég ætla ekki að sjá hana í bíó og mun forðast þá kvikmyndahúsakeðju sem sýnir hana því ég vil ekki einu sinni sjá sýnishornið úr myndinni. Síðan ég sá fyrri myndina hefur bíóferðum mínum fækkað allsvakalega auk þess sem ég er löngu hættur að þora að láta sjá mig á óvissusýningum.

Ég við því biðja alla sem ég þekki um að forðast þessa mynd þar sem ég óska engum svo ills að sitja í gegnum þessar hörmungar. Það er bara ekki þess virði. Lífið er of stutt.

Kveðja,
Dóri

11.03.2006 20:08

Grímuball og útilegupæling



Við Silja fórum á djammið í gær í fyrsta skiptið í rosalega langan tíma. Byrjuðum á grímuballi í Kópavoginum þar sem við vorum Sesar og Kleópatra. Alli og Arngrímur komu með okkur og ég er einmitt búinn að setja inn myndir þaðan í myndaalbúmið. Grímuballið var mjög hresst og margir góðir búningar. Skemmtiatriðin voru mis, fyrst kom Elvisgaur með gítar og söng Bubbalög. Svo komu Pjöllurnar, saumaklúbburinn sem stóð fyrir þessu balli, allar klæddar sem Silvía Nótt og tóku atriðið hennar. Síðast og langsíst kom hljómsveitin Tilþrif (www.tilthrif.is) og spilaði fyrir dansi. Hljómsveitin Tilþrif er nákvæmlega eins og búast má við, ekki góð. Við ákváðum því að yfirgefa staðinn þegar þeir byrjuðu og fórum heim og skiptum um búninga. Síðan fórum við í bæinn og þar var fjör. Drukkum bjór og Arngrímur fékk sér langþráðan Kebab. Í öllu falli var þetta fyrsta djamm okkar í marga mánuði mjög vel heppnað.

Í byrjun þessa árs voru haldnir stórir tónleikar til styrktar íslenskri náttúru. Þið munið kannski eftir þessum tónleikum, allir spiluðu á þeim. Fullt af frægu fólki allavegana. Ég fór ekki en langaði frekar mikið. Mér fannst þó mjög fyndið að lesa það í einhverju blaði að eftir tónleikana hefði hópur af tónlistarfólki sem spilaði á þeim farið á Ölver í karaoke. Meðal nafna voru Björk og Jónsi í Sigurrós. Ég sá alveg fyrir mér þetta artífartílið standa uppá Ölversviðinu að taka týpískustu karaokelög í heimi. Svo vorum við Silja á rúntinum í fyrradag þegar mér datt í hug ennþá fyndnari pæling. Sigurrós í tjaldútilegu að taka alla helstu útileguslagara Íslands! En verandi kóngar artífartí/krútt-fólksins þá spila þeir lögin ekki á gítar heldur spilar einn þeirra á grjót sem hann hefur safnað úr nágrenninu, annar spilar á tjöldin með fiðluboga á meðan sá þriðji spilar á hina gaurana eða eitthvað álíka steikt. Og þannig taka þeir öll helstu Bubbalögin, Sálarlögin og svo auðvitað Rangur maður. Snilld! Gleymd'essu maður.

Ég hélt annars að lazeraðgerðir á augum ætti að bæta sjónina en hjá sumum virðist hún brengla hana. Nema kannski það sé eitthvað annað sem rugli í fólki...

09.03.2006 15:32

Tannlæknafjör

Var að koma frá tannlækni. Er allur dofinn hægra megin í andlitinu, alveg uppfyrir eyra. Stórskrýtin tilfinning. Gat ekki sofið í nótt fyrir verkjum og svo kom í ljós að ég var kominn með rótarbólgu og þarf að fara í rótarfjör. Skemmdin var fjarlægð og hluti af tauginni líka, eintómur gargandi hressleiki. Talandi um hressleika þá veit ég ekki hvað ég hefði gert ef hinn afar hressi tannlæknir minn hefði ekki verið með stillt á Bylgjuna hina hressu. Þá væri ég ekki svona hress núna. Bylgjan bjargaði mér svo sannarlega. Lifi Bylgjan!
Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 97
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 90640
Samtals gestir: 18003
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 08:39:00